Samvinna heimilis og skóla
- Elísa Viðarsdóttir og Anna Traustadóttir næringafræðingar

- Nov 18, 2025
- 1 min read
Jákvæð áhrif á matarvenjur barna
Kæru foreldrar og forráðamenn,
Á næstu mánuðum mun Í mat beita sér fyrir bættum skólamáltíðum, matseðlagerð og auka
fræðslu í samstarfi við næringarfræðinga . Verkefnið er hugsað til að auka upplýsingar til
foreldra varðandi næringu og matarvenjur sem og bæta upplifun barna að skólamat.
Í mat vinnur út frá ráðleggingum frá Embætti landlæknis þar sem leitast er eftir að hafa
skólamáltíðir fjölbreyttar og næringarríkar eins og hægt er. Boðið er upp á grænmeti, ávexti,
heilkorn, prótein og góðar fitur sem hjálpa börnum að vaxa og þroskast, viðhalda orku yfir
daginn og styðja við einbeitingu og vellíðan.
Við vitum að foreldrar leggja grunninn að matarvenjum barnanna. Þegar fjölskyldan
borðar saman, sýnir áhuga á fjölbreyttum mat og talar jákvætt um að prófa nýtt, lærir barnið
að tengja mat við gleði og öryggi. Börn læra það sem þau sjá og heyra, líka þegar kemur að
mat. Þess vegna skiptir miklu máli að skilaboðin um næringu séu jákvæð bæði heima fyrir og
í skólanum. Þegar börn sjá svipaðar áherslur heima, til dæmis með því að fá ávöxt með
nestinu eða vatn í drykkjarflöskuna, verða góðar venjur fljótt að sjálfsögðum hluta dagsins.
Rannsóknir sýna að fjölskyldumáltíðir eru góð forvörn gegn áhættuhegðun ungmenna.
Samtöl við matarborðið geta styrkt tilfinningagreind barna, auk þess sem slíkar máltíðir
tengjast heilbrigðari matarvenjum til framtíðar.
Markmiðið er að saman getum við skapað jákvætt næringar umhverfi fyrir börnin, þar
sem skóli og heimili vinna í sameiningu að því að kenna og styrkja hollustu og jákvætt
viðhorf til matar.
Takk fyrir að taka þátt í því að styðja börnin og byggja upp gott samband við mat með okkur.
_Transparent_red_orange.png)


Comments